Það eru ekki aðeins formúlusérfræðingar sem eru að tjá sig heldur eru einnig fótboltasérfræðingarnir farnir að greina málið.
Umdeildur endir fór vægast sagt misvel í fólk og allra verst í Bretana sem fannst sinn maður verða rændur heimsmeistaratitlinum.
Formúla eitt stillti lokasprettinum þannig upp að Max Verstappen fékk að fara fram fyrir bílana sem hafði hringað og vera því fyrir aftan Lewis Hamilton þegar keppnin hófst á nýju. Öryggisbílinn hafði komið inn eftir árekstur á brautinni.
Max Verstappen tókst í millitíðinni að skipta yfir á betri dekk og var því miklu betur búinn fyrir lokakaflann þar sem hann komst fram fyrir Hamilton og tryggði sér heimsmeistaratitilinn.
Gary Lineker hefur unnið mikið í fótboltasjónvarpi undanfarna áratugi eftir að hafa sjálfur átt frábæran feril í fótboltanum.
Imagine Man City and Liverpool going toe to toe for the title. On the last day of the season they meet & City are 3 up with just minutes to go. The referee decides it would be more exciting to have a penalty shootout. What s more the City players have to be barefooted. That s @F1
— Gary Lineker (@GaryLineker) December 13, 2021
Lineker tjáði sig um formúluna á Twitter og hitti naglann á höfuðið að mati flestra sem eru Lewis Hamilton megin í lífinu.
„Ímyndið ykkur að Man City og Liverpool séu að berjast um enska meistaratitilinn. Á lokadegi tímabilsins þá mætast þau. City er þremur mörkum yfir þegar mínúta er eftir af leiknum,“ skrifaði Gary Lineker á twitter síðu sína og hélt áfram:
„Dómarinn ákveður þá að það væri skemmtilegra og meira spennandi að enda þetta í vítakeppni. Það sem meira er að leikmenn City þurfa að taka vítin berfættir. Svona er F1,“ skrifaði Lineker og færslan hans fór á flug.