Skoðun

SPICE og önnur „ný“ efni

Rannveig Borg Sigurðardóttir skrifar

Reglulega birtast greinar um aukna notkun Spice á Íslandi. En hvað er þetta Spice?

Spice er eitt af þeim efnum sem kallast „New Psychoactive Substances“ (NPS) eða ný hugbreytandi efni í lauslegri þýðingu. Talað er um „ný efni“ vegna þess að alþjóðlegir samningar ná ekki yfir þessi efni. NPS eru nokkurs konar eiturlyfjaeftirlíkingar – Spice líkir til dæmis eftir kannabis og virkjar sömu stöðvar í heilanum. Möguleikar á nýjum NPS eru óendanlegir og reglulega eru ný NPS gerð upptæk út um allan heim, eftirlíkingar af allskonar þekktum eiturlyfjum eins og kannabis, kókaíni, heróíni, LSD eða MDMA (ecstasy) en einnig lyfseðilsskyldum lyfjum eins og benzódíazepín-lyfjum (róandi) og ópíóðum (sterkum verkjalyfjum).

Það er almennt gengið út frá því að NPS séu skaðleg og jafnvel mun skaðlegri og sterkari en upprunalegu efnin. Það á einnig við um Spice sem er til í mismunandi útgáfum. NPS eru oft ódýrari en upprunalegu efnin og seld undir saklausum spennandi nöfnum eins og Spice, baðsalt, partý pillur.

 Þá er oft talað um lögleg efni eða „legal high“ sem dregur síður en svo úr áhættunni hvað þessi efni varðar. Lagaumhverfið nær oft ekki yfir þessi nýju efni vegna þess hversu hratt þau þróast. NPS eru framleidd út um allan heim og framleiðendurnir eru sífellt að breyta efnunum og flytja sig á milli landa til þess aðsleppa undan löggjafanum þ.e. þegar eitt NPS er komið á lista yfir ólögleg efni í einu landi þá flytja framleiðendur sig til þess næsta eða breyta samsetningunni á efninu.

Til þess að bregðast við þessu vaxandi vandamáli sem aukning á notkun NPS er, hefur samstarf og ákveðin ferli verið sett af stað í Evrópu og á alþjóðavísu og nýjum NPS reglulega bætt við alþjóðlega lista yfir ólögleg eiturlyf. Það samstarf er þó oft þungt í vöfum og mörg enn nýrri efni komin á markað þegar þau fyrri hafa verið lögfest sem eiturlyf. Þess má þó geta að sum lönd eins og Sviss til dæmis hefur gengið lengra og sett upp mjög skilvirka leið á landsvísu til að bæta hratt nýjum NPS á lista yfir ólögleg eiturlyf. 

Síðan 2011 hefur 10 flokkum og um 250 efnum verið bætt við lista yfir ólögleg efni í Sviss. Þessi lagabreyting var gerð til að draga úr aukningu á NPS í Sviss og til þess að koma í veg fyrir að Sviss yrði viðskiptamiðstöð með NPS.

Þá að Íslandi, þegar breytingar á fíkniefnilöggjöf eru næst til umræðu væri athyglisvert að líta til lagaumgjarðarinnar í Sviss meðal annars hvað NPS varðar. Ennfremur þyrfti að auka umræðu um hætturnar sem stafa af NPS – Spice eins og öðrum nýjum hugbreytandi efnum.

Höfundur er starfandi lögfræðingur í Sviss, og nemi í alþjóðlegri fíknfræði við King´s College London.

Heimildir:

https://www.unodc.org/LSS/Page/NPS

https://www.emcdda.europa.eu/topics/nps_en

https://www.unodc.org/documents/scientific/NPS_Report.pdf

https://www.swissmedic.ch/swissmedic/en/home/news/mitteilungen/narcotics-list-extended-2019.html

https://www.emcdda.europa.eu/publications/topic-overviews/eu-early-warning-system_en




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×