Lítið hefur komið út úr störfum samráðsnefndar Íslands og Danmerkur um handritin sem var stofnuð fyrir tveimur árum.
Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra hefur í sinni stjórnartíð talað fyrir því að fá þau íslensku miðaldahandrit sem enn eru í vörslu Dana hingað heim.
Í vikunni birti Danska Ríkisútvarpið viðtal við ráðherrann þar sem hún gagnrýndi meðal annars framlag Dana til fræðanna.
„Danir hafa ekki sinnt í eins miklum mæli rannsóknarskyldu sinni, ef við skoðum samninginn og þeir hafa líka verið að skera niður fjárveitingar til Norrænna fræða í Kaupmannahafnarháskóla,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Í handritasáttmálanum var ákveðið að Íslendingar fengju hluta handritanna aftur og að bæði lönd myndu sinna rannsóknum á þeim.
Einnig er þar kveðið á um Íslendingar geti ekki krafist þess að fá fleiri handrit afhent.
Vildu hindra það að einhver eins og Lilja kæmi til sögunnar
Er þessi samningur þá orðinn úreltur að mati ráðherrans?
„Hann var mjög umdeildur á sínum tíma. Það voru mjög margir Danir sem vildu alls ekki að handritin færu hérna eða að svona helmingurinn kæmi til Íslands því að þeir höfðu áhyggjur af því að það myndi einhver koma seinna meir eins og ég og segja heyrðu það ætti eitthvað meira að koma,“ segir Lilja.
Þó telur hún að hægt sé að vinna innan samkomulagsins með því að fá langtímalán á handritunum.
Danir neituðu nýlega Norðmönnum um svipaða langtímalánsbeiðni og hafa margir litið á það sem merki þess að enginn vilji sé þeim megin til að skila menningarverðmætum aftur til upprunalandanna.
Lilju þykir synd að handritin séu geymd þar sem þeim sé ekki sinnt eins vel og hægt er.
„Já ég tel að svo sé. Og dönsk yfirvöld segja að þau geti gert betur. En ég segi við getum líka gert enn betur,“ segir Lilja.