Mennirnir þrír höfðu siglt gúmmíbát út í átt að Engey í Kollafirði og kastað akkeri til þess að eiga góðan dag á brimbrettum.
Þegar þeir höfðu lokið sér af og stefndu að heimför kom í ljós að bátur þeirra var orðinn vélarvana.
„Þá gerðu þeir það rétta í stöðunni. Þeir hringdu í 112 og óskuðu eftir hjálp, mennirnir voru vel búnir í þurrgöllum, óslasaðir og héldu kyrru fyrir,“ segir í tilkynningu Landsbjargar.
Þá segir að tveir björgunarbátar hafi verið kallaðir út og verkefnið hafi verið fljótleyst. Ekki síst vegna þess að mennirnir hafi vitað upp á hár hvar þeir voru staðsettir.