Íbúar Tonga standa frammi fyrir gífurlega umfangsmiklu hreinsunarstarfi en flóðbylgjan sem skall á eyjunum er talin hafa haft áhrif á meira en 80 prósent þeirra. Öskufallið hefur áhrif á þau öll en drykkjarból eyjanna eru menguð af bæði ösku og sjó. Hamfarirnar höfðu einnig slæm áhrif á uppskeru á eyjunum.
Ríkisstjórn Tonga hefur lýst hamförunum sem fordæmalausum og er búið að lýsa yfir mánaðar neyðarástandi.
Til stendur að flytja íbúa sem misstu heimili sín þegar allt að fimmtán metra há flóðbylgja skall á eyjunum til höfuðborgar Tongo vegna skorts á drykkjarvatni og matvælum. Það gæti þó reynst erfitt þar sem fjarskipti á svæðinu eru enn stopul. Það sama má segja um samgöngur en öskufallið hefur skemmt báta og stöðvað flugferðir.
Aðstoð hefur borist frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi en ótti íbúa Tonga við kórónuveiruna hefur komið niður á hjálparstarfi. Kórónuveiran hefur hingað til ekki teygt anga sína til eyjaklasans, nema einu sinni, og ríkisstjórn Tonga vill halda því þannig.
Íbúar Tonga munu því ekki eiga í samskiptum við hermenn Ástralíu og Nýja-Sjálands sem flytja birgðir og búnað til eyjanna. Fólk sem vill fara til Tonga þarf fyrst að fara í þriggja vikna einangrun og vörubretti eru geymd í 72 klukkustundir áður en yfirvöld á Tonga dreifa birgðum til íbúa.
Þrátt fyrir erfiðleikana segjast íbúar Tonga staðráðnir í því að klára endurbygginguna og koma lífi sínu í eðlilegt horf aftur.

