Á Skagaströnd búa tæplega 500 manns. Það er mikill kraftur í Nes Listamiðstöð á staðnum og þeim, sem stjórna miðstöðinni því þeir hafa nú undirbúið ljósahátíðina, sem mikil spenna er fyrir. Janúar er jú mjög dimmur mánuður og því er vel við hæfa að lýsa hann upp í tvo daga frá 18:00 til 21:30 eins og listamennirnir hjá Nes Listamiðstöð munu gera.

Guðbjörg Eva Guðbjartsdóttir er stjórnarformaður miðstöðvarinnar og fer fyrir ljósahátíðinni á Skagaströnd.
„Það eru í rauninni alls konar verkefni í gangi, á tjaldsvæðinu er til dæmis einn að vinna með risastórt tungl. Svo erum við að varpa ljósum á húsveggi og á steina, og svo er einn listamaður að búa til eldfjöll úr snjó. Þetta er ótrúlega upplífgandi fyrir bæinn, sérstaklega svona í mesta skammdeginu,“ segir Guðbjörg Eva.
En hvernig geta íbúar og gestir notið hátíðarinnar?
„Það er bara að fara í göngutúr og rölta um til að sjá öll listaverkin eða bara að kíkja á rúntinn, bara allt eins og fólki finnst best."

Þetta er svolítið sniðugt í Covid að gera þetta svona?
„Já, við ákváðum að blása þetta ekki af þrátt fyrir allar takmarkanir af því að fólk getur haldið sig svolítið út af fyrir sig. Þó bærinn sé lítill þá eru fjölmargir staðir, sem við erum með verk á, þannig að það ætti ekki að vera neitt vandamál,“ segir Guðbjörg Eva.
Guðbjörg Eva segist finna fyrir mikilli tilhlökkun fyrir ljóslistahátíðinni á Skagaströnd á morgun og hinn.
„Ég bíð bara alla hjartanlega velkomna að koma hingað á Skagaströnd og sjá allt, sem listamenn eru búnir að setja upp, þetta er ótrúlega flott og spennandi, allavega það sem ég hef séð“.
