Hin fjögurra ára gamla Cleo Smith hvarf úr tjaldi fjölskyldu sinnar um miðja nótt í október í fyrra en fjölskyldan var í útilegu í vesturhluta Ástralíu. Umfangsmikil leit hófst að stúlkunni, sem stóð yfir í átján daga, þar til hún fannst heima hjá ókunnugum manni í Carnarvon, heimabæ hennar.
Terence Darrell Kelly, 36 ára gamall, játaði í dag fyrir dómi að hafa rænt Cleo. Kelly verður því áfram í gæsluvarðhaldi þar til aðalmeðferð í málinu hefst í mars. Ástralskir fjölmiðlar segja játninguna hafa komið á óvart og margir hafi gert ráð fyrir því að málið yrði lengi fyrir dómstólum.
Kelly hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í nóvember, tveimur dögum eftir að lögregla gerði húsleit á heimili hans og fann Cleo þar læsta inni. Kelly var handtekinn nokkrum götum frá heimili sínu.