Vakthafandi náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við fréttastofu að jarðskjálftar mælist í Kötlu-öskjunni endrum og eins en lítil virkni hafi verið síðustu fjögur ár.
„Þetta virðist vera stærsti skjálfti síðan 2017 en virknin er að mestu komin niður aftur og við fylgjumst vel með stöðunni áfram.“
Hann segir að Veðurstofan sé með sólarhringsvakt og vel verði fylgst með svæðinu. Það sé þó ekkert sem bendi til þess að gos sé í nánd á þessum tímapunkti.
„Katla er ekki á óvissustigi eins og er og virkni verður að aukast til muna til þess að hún færi á eitthvað óvissustig,“ segir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
