Það kom í ljós seinni partinn í gær þegar kafbátur var sendur niður að flakinu til að kanna aðstæður þar betur að enginn væri um borð í flugvélinni.
Leit hófst að flugmanninum og þremur erlendum ferðamönnum, sem voru farþegar hans, í birtingu í morgun. Fjölmennt lið lögreglu- og björgunarsveitarfólks ásamt séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar tekur þátt í leitinni.
Leitarfólk er í kapphlaupi við tímann þar sem ofsaveðri er spáð á svæðinu og um land allt í nótt.
Leitað er að fólkinu við vatnið, á því og á botni þess með kafbáti.
Engar líkur á að fólkið hafi komist í land
„Vélin lendir í vatninu og þá er greinilegt að fólkið hafi komist af sjálfsdáðum út úr henni,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Það séu engar líkur á að nokkur hafi komist lifandi í land.
„Stysta leið í land er um kílómeter og vatnið er núll til ein gráða og aðstæðurnar til að komast úr þessu eru bara ómögulegar, sko. Ofkælingin er bara komin strax,“ segir Oddur.

Enn séu engar vísbendingar um það atvikaðist að flugvélin endaði í vatninu.
„Nei, við bara gefum okkur ekki neitt það eru teknir saman einstakir þættir í hverjum rannsóknarhluta og úr því verður einhver heildarmynd sem við erum ekkert að gefa út um fyrr en rannsókn er lokið,“ segir Oddur.
Hann vill ekki svara því hvort einhver samskipti hafi verið milli flugvélarinnar og flugstjórnar eftir að hún fór í loftið.
„Flugmaðurinn tilkynnir um flugplanið bara eins og er gert og við skulum svo bara eiga annað inni í rannsókninni. Og upplýsum ekkert um hana eða einstaka þætti hennar,“ segir Oddur.