„Við náðum góðum kafla í fyrri hálfleik sem lagði grunninn að sigrinum. Þá gerðum vel í að halda þeirra bestu leikmönnum í skefjum,“ sagði Lovísa Thompson í samtali við Vísi eftir leik.
Valskonur byrjuðu leikinn hikandi en um miðjan fyrri hálfleik gerðu heimakonur sex mörk í röð sem Lovísa var afar ánægð með.
„Við þéttum vörnina og Sara [Sif Helgadóttir] varði vel í markinu sem skilaði okkur auðveldum mörkum.“
Lokamínúturnar voru nokkuð spennandi þar sem Haukar gerðu vel í að saxa á forskot Vals og fannst Lovísu liðið slaka of mikið á.
„Mér fannst við slaka of mikið á og þá gerist þetta því Haukar er gott lið sem gefst aldrei upp.“
Lovísa var ánægð með stígandann í liðinu eftir slaka byrjun Vals á árinu.
„Við erum að stíga upp eftir frekar slaka byrjun á árinu. Við erum að bæta okkur á hverri æfingu og í hverjum leik,“ sagði Lovísa sem vonar að Valur toppi á réttum tíma.