Hugur og líkami
Undirmeðvitundin er Claire hugleikin en hugmyndin að þessum verkum er byggð á athugunum listakonunnar á undirmeðvitundinni og þá sérstaklega hvort þar ríki regla eða óregla. Vangaveltur um hvert hugurinn fer þegar hann er ekki á sama stað og líkaminn liggja einnig að baki hugmyndafræðinnar.

Ólíkir raunveruleikar
Í samtali við blaðamann segir Claire að innblásturinn að Anywhere But Here vísi í augnablikið þegar hugurinn festist í ferðalagi gegnum drauma og minningar.
Tímaskynið hverfur þrátt fyrir að maður sé algjörlega vakandi, úti að ganga eða standandi í röð. Líkaminn er það eina sem er eftir í áþreifanlegum raunveruleika á meðan að hugurinn dýfur sér inn í raunveruleika undirmeðvitundarinnar.
Þátttaka gesta
Ganga þarf bókstaflega í gegnum eitt verkanna til að komast inn á sýninguna og er það hugsað sem gátt inn í sýningarrýmið. Á sýningunni er líka önnur gátt sem leiðir styttra en þó að öðru verki. Á milli gáttanna tveggja eru flekar á hjólum sem breyta ásýnd gólfsins á listasalnum og brjóta upp þá heild. Saman kallast þessi verk Á milli inni í mér.
Hitt verkið á sýningunni er Dagbækur undirmeðvitundarinnar sem er sería af stafrænum klippimyndum þar sem undirmeðvitundin fær að ráða loka útlitinu. Sýningargestum gefst tækifæri á að fá nánari innsýn í sýninguna á listamannaspjallinu og mun Claire svara þeim spurningum sem kvikna.
