Anton keppti í 100 metra bringusundi í gær. Strax í undanrásunum synti hann á nógu góðum tíma til að tryggja sig inn á Evrópumeistaramótið í Róm í ágúst, með því að koma í bakkann á 1:02,13 mínútu.
Í úrslitunum um kvöldið endaði Anton svo í 5. sæti, á þessu sterka móti, á 1:01,30 mínútu og tryggði sér þar með sæti á HM í Búdapest í júní.
Anton birti færslu á Instagram fyrir þetta fyrsta mót sitt á árinu, og sagði að tími væri kominn „til að vera víkingur“.
Árangur síðasta árs var langt undir væntingum Antons sjálfs en þessi 28 ára gamli Íslandsmethafi endaði í 24. sæti í einu grein sinni á Ólympíuleikunum í Tókýó; 200 metra bringusundi.
Nýtt keppnisár hefst hins vegar vel hjá honum eins og fyrr segir og Anton verður aftur á ferðinni á morgun þegar hann keppir í 200 metra bringusundi á mótinu í Illinois, sem fram fer í bænum Westmont í nágrenni Chicago.