Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur ítrekað kallað eftir því að þjóðir hætti öllum kaupum á olíu og gasi frá Rússlandi. Á sama tíma og hinar ýmsu efnahagsþvinganir hafa bitið Rússa halda greiðslur vegna jarðefnaeldseytis áfram að flæða til landsins.
Ekki er talið að Evrópuþjóðir muni taka þátt í aðgerðunum þar sem samstaða hafi ekki náðst um málið. Breska ríkisstjórnin verður sömuleiðis með blaðamannafund um klukkan 16 þar sem búist er við því að stjórnvöld muni kynna hvernig þau hyggist draga úr innflutningi á rússnesku olíu og gasi til lengri tíma.
Samkvæmt opinberum gögnum fluttu Bandaríkjamenn inn um 200 milljón olíutunnur frá Rússlandi árið 2020. Reiknað er með að ríkisstjórn Joe Biden muni kynna innflutningsbann á olíu, gas og kol frá Rússlandi á næstu sólarhringum. Ljóst er að slík aðgerð gæti þýtt verulegt högg fyrir Rússa.
Margar Evrópuþjóðir reiða sig verulega innflutning á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Til að mynda stendur rússneskt gas undir fjórðungi af orkunotkun Ungverjalands, 22% í Slóvakíu, 17% í Moldóvu, 15% í Austurríki og 14% í Þýskalandi.
Vilja hafa Evrópu með
„Við erum að ræða við félaga okkar í Evrópu um möguleikann á samrýmdum aðgerðum varðandi bann á innflutningi á rússneskri olíu. Við viljum tryggja að það sé nægt framboð af olíu á heimsmarkaði. Viðræður eru í gangi,“ sagði Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna við CNN í gær.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins, hefur stutt hugmyndir er varða innflutningsbann á rússneskri olíu. Hún segir útflutning Rússa vera að fjármagna stríðsrekstur þeirra.
Getgátur eru á lofti um að Bandaríkjamenn sjái möguleikann á því að Venesúela geti orðið þeim úti um olíu ef innflutningsbann verður sett á olíu frá Rússlandi. Venesúela framleiðir mikið magn af olíu á ári hverju og er í tólfta sæti yfir þau ríki sem framleiða mesta olíu í heiminum.
Hægt er að fylgjast með nýjustu vendingum í málefnum Úkraínu í vaktinni á Vísi.