Skoðun

Stúdenta­lýð­ræðið á stríðs­tímum

Úlfur Atli Stefaníuson skrifar

Um helgina var ég staddur á landsþingi íslenskra stúdenta á Hólum í Hjaltadal, ásamt um það bil 40 öðrum fulltrúum stúdenta víða af landinu. Helgin fór fram með stakri prýði og fannst mér markvert hversu lýðræðislegt þingið var, en stúdentar frá háskólum landsins sem og fulltrúar íslenskra stúdenta erlendis unnu þar vel og örugglega saman í þágu stúdenta.

Á sama tíma var mér mjög svo hugsað til jafnaldra minna og kollega, stúdentahreyfingarinnar austur í Úkraínu. Þau eru því miður ekki svo lánsöm þessa dagana að geta blómgað lýðræðið sitt eins og við í Landssamtökum íslenskra stúdenta, einfaldlega vegna þess að þau eru upptekin við að verja tilvist þess með kjafti og klóm.

Stúdentahreyfingar heimsins hafa í gegnum árin verið boðberar framþróunar og mannréttinda og munu ef að líkum lætur vera það áfram um ókomna tíð. Ég vona svo innilega að það verði enn til staðar úkraínsk stúdentahreyfing til þess að byggja upp háskólaumhverfi úkraínsku þjóðarinnar á ný þegar stríði lýkur.

Loks vil ég benda á óskir UAS (Ukranian Association of Students) um að innrásinni sé mótmælt og samstarf við rússneskar menntastofnanir sé stöðvað á meðan stríði stendur. Einnig er gott og gilt að styrkja fólk á flótta, en þess má geta að íslenskir dýralæknanemar búsettir í Slóvakíu hafa sýnt gott fordæmi og sendast þau milliliðalaust með nauðsynjavörur til flóttafólks í gegnum fésbókarhópinn ”Söfnun fyrir flóttamenn frá Úkraínu”.

Eins og áður hefur komið fram styðja stúdentahreyfingarnar á Íslandi úkraínsku þjóðina og stúdenta þar í landi heils hugar. Háskólanemendur í Úkraínu eiga skilið frið til þess að geta sinnt sínu námi, vinnu og lífi.

Höfundur er ritari LÍS (Landssamtök íslenskra stúdenta).




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×