„Maður er á fullu að setja sig inn í þennan heim sem maður er fyrst núna að kynnast, maður er að meðtaka þetta,“ segir Elín. Þær systur segjast ekki vera Eurovision nördar en hafi þó alltaf fylgst með keppninni.
„Nú þurfum við að fara að koma okkur inn í þessa senu og vinna heimavinnuna okkar sem er ótrúlega skemmtilegt,“ segir Beta. Aðspurðar út í atriðið sjálft þá svara þær því að atriðið verði fínpússað eitthvað en ekki breytt algjörlega.
„Það verða nýir búningar alveg klárt mál. Við ætlum ekki að gera ykkur það að fara þarna inn og dansa,“ segir Elín. „Það er annað hvort að syngja eða dansa, við getum ekki sungið og dansað,“ segir Beta og hlær. „Mjög mikill athyglisbrestur.“
„Það væri ótrúlega skemmtilegt og fyndið,“ sagði Elín þegar þær voru spurðar hvort foreldrar þeirra, Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson gætu ekki farið með þeim á sviðið þar sem þau eru bara fjögur í atriðinu en leyfilegt er að vera með sex einstaklinga á sviðinu í Eurovision.
„Við útilokum ekkert.“
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. Þar tala þær meðal annars um viðtalið við 60 minutes, undirbúninginn fyrir Ítalíu og margt fleira.