Skoðun

Ungt fólk skiptir máli

Derek Terell Allen skrifar

Ungu fólki er oft sagt að við vitum ekki neitt, að við getum ekkert gert og að okkar álit sé einskis virði. Það að við höfum ferðast færri hringi í kringum sólina er oft notað sem leið til gera lítið úr okkar ábendingum og hugmyndum, óháð hvað þær eru góðar. Af þessum sökum hefur því miður dregist á langinn að taka aðgerðir gegn þrálátu loftslagskrísunni. Það er óásættanlegt að sitja á hakanum á meðan ástandi Jarðar hrakar ört. Ef ekki er tekið strax til aðgerða þá verða færri ferðir í kringum sólina fyrir okkur öll.

Um er að ræða neyðarástand. Við getum ekki beðið til að sjá enn einn jökulinn bráðna eða enn eina á þorna upp. Stjórnvöld verða að taka til aðgerða og þau verða að taka til aðgerða strax.

Kröfur okkar í Loftslagsverkfallinu eru eftirfarandi:

  1. Við krefjumst þess að stjórnvöld uppfæri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum tafarlaust til að ná fram raunverulegum og fullnægjandi samdrætti í losun.
  2. Við krefjumst þess að ungt fólk hafi rödd og vægi í ákvarðanatöku um loftslagsmál á öllum stjórnsýslustigum.
  3. Við krefjumst þess að stjórnvöld verji a.m.k. 4% af vergri landsframleiðslu í loftslagsaðgerðir og hætti niðurgreiðslum á ósjálfbærri starfsemi.

Við förum fram á að tekið verði mark á okkur unga fólkinu, enda erum það við sem munum erfa afleiðingar loftslagsbreytinga. Stjórnvöld verða að axla ábyrgð annars verður mannkynið hreinlega ekki til.

Við hlökkum til að sjá ykkur öll á allsherjarverkfalli á Austurvelli kl. 16:00 á föstudaginn 25. mars!

Höfundur er forseti Landssamtaka Íslenskra stúdenta og skipuleggjandi Loftslagsverkfallsins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×