Glöggt er gests augað - og þess sem er nýbyrjaður á vinnustað. Þetta hefur sannarlega sýnt sig á fyrsta þingi kjörtímabilsins, þar sem nýgræðingarnir hafa farið fram á hinar og þessar úrbæturnar í sinni persónulegu starfsaðstöðu.
Fréttastofa fór í heimsókn á Alþingi í dag og gerði stutta athugun á starfsumhverfi þingmannanna, samanber myndbrotið hér að ofan.
Stólar, klukkur, textavélar
Ágústa Ágústsdóttir varaþingmaður Miðflokksins mælti eindregið með því á fyrsta degi sínum í þinginu að stólum í þingsal yrði skipt út fyrir „sómasamlega stóla.“ Þeir sem fyrir eru eru orðnir 35 ára gamlir - og Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, upplýsir fréttastofu um að til standi að skipta þeim út.
Jakob Frímann Magnússon þingmaður Flokks fólksins kallaði þá eftir því á dögunum að komið væri fyrir svokölluðum „prompter“ eða textavél, framan við myndavélar Alþingis, þannig að þingmenn gætu talað beint til þjóðarinnar.
Tómas A. Tómasson, flokksbróðir Jakobs, óskaði eftir klukku í þingsal svo menn gætu litið eftir tímanum við ræðuhöld. Þar gætti hann þess að vísu ekki að beint á móti honum var klukka á veggnum, eins og sýnt er í myndbrotinu hér að ofan.
Monster kominn í kælinn
Skrifstofustjóri Alþingis er ánægður með nýja fólkið.
„Það er bara gaman að því að fá ýmsar ábendingar. Það er hægt að verða við sumum og öðrum ekki,“ segir Ragna Árnadóttir.

Breytingar á þingsalnum sjálfum krefjast mikillar yfirlegu. Forseti Alþingis hefur þar töluverða aðkomu að málum og leitast er við að hafa allar hefðir í heiðri.
En í matsalnum eru boðleiðirnar greiðari, eins og Gísli Rafn Ólafsson þingmaður komst að þegar mötuneytið hóf að selja orkudrykkinn Monster eftir að hann sendi bréf á forsætisnefnd.
„Við urðum við því að setja orkudrykki í kælinn, við sjáum hvort hann selst eitthvað. En ef ekki verður viðkomandi þingmaður með séróskir bara að fara út í sjoppu. Það er líka til,“ segir Ragna.
Er nauðsynlegt fyrir þingmennina að taka þetta upp í ræðustól Alþingis eða hvað?
„Þeir hafa náttúrulega fullt málfrelsi og svoleiðis. En stundum finnst manni eins og þeir gætu bara komið og talað við okkur. En allt í lagi. Þetta kannski þjónar þeim tilgangi að vekja athygli á aðbúnaði þingmanna og mér finnst bara jákvætt að þingmenn vilji sjálfir tala um það að bæta sinn aðbúnað, því það er oft talað um það að þessir stjórnmálamenn hafi það nú svo gott og svona. En það er nú ekki alltaf raunin, þannig að mér finnst þetta bara jákvætt,“ segir Ragna.