Það andaði köldu milli sendinefnda Rússa og Úkraínumanna og tókst meðlimir þeirra ekki í hendur þegar þeir mættu til fundar í Istanbúl í Tyrklandi í morgun.
Þetta er í fyrsta skipti í tæpar þrjár vikur sem sendinefndirnar hittast í persónu til að reyna að semja um frið.
Erdogan Tyrklandsforseti tók á móti og bauð þær velkomnar á fundinn. Hann sagði það í þeirra höndum að stöðva hörmungar stríðsins.
„Það er öllum í hag að koma á vopnahléi og friði eins fljótt og auðið er. Við teljum að við séum komin að þeim tímapunkti þar sem við verðum að ná fram raunverulegum árangri með viðræðunum,“ sagði Erdogan þegar hann ávarpaði sendinefndirnar.
Rússneski auðjöfurinn Roman Abramovich, sem er einna þekktastur fyrir að eiga enska knattspyrnuliðið Chelsea, var mættur á fundinn í morgun en hlutverk hans í viðræðunum er óljóst.
Í gær var greint frá því að bæði Abramovich og þrír meðlimir Úkraínsku sendinefndarinnar sem mættu til friðarviðræðna í byrjun mánaðarins teldu að eitrað hefði verið fyrir sér þar.

Eftir fundinn urðu þeir veikir, fór að svíða í augun og húðin að flagna af andliti og höndum þeirra.
Áður en viðræðurnar hófust í dag beindi utanríkisráðherra Úkraínu því til allra viðstaddra að forðast það að drekka og borða þar og reyna að sleppa því að snerta yfirborð hluta.
Enn langt í land
Þrátt fyrir bjartsýni Erdogans Tyrklandsforseta við upphaf fundarins eru vestrænir stjórnmálagreinendur ekki eins vongóðir um að nefndirnar nái saman á næstunni.
Enn er langt á milli þeirra; Pútín Rússlandsforseti er sagður fastur á því að bakka ekki með herlið sitt án þess að fá nokkuð af landsvæði Úkraínumanna í staðinn en Úkraínumenn segjast staðráðnir í því að láta ekkert af landi sínu af hendi.
Peter Ricketts, fyrrum fulltrúi Breta í NATO, ræddi við erlenda fjölmiðla um viðræðurnar í morgun. Hann sagði afstöðu Úkraínumanna til NATO eða Evrópusambandsins ekki lykilmál í viðræðunum nú.
„Aðalatriðið er hvað verði um svæðin sem rússneski herinn hefur þegar náð stjórn á. Ég hef ekki trú á því að Pútín sé tilbúinn að láta af hendi svæði eins og Mariupol þegar hann hefur náð tökum á þeim,“ sagði Ricketts.

Pattstaða í stríðinu
Borgin Mariupol hefur verið umsetin af Rússum nánast frá upphafi innrásarinnar og virðist nú við það að falla.
Að öðru leyti virðist alger pattstaða komin upp í stríðinu. Rússar hafa lítið sem ekkert náð að sækja fram síðustu daga og Úkraínumenn náð einhverju af svæði sínu til baka.