Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdarstjóri Eflingar, fer ófögrum orðum um Agnieszku Ewu Ziólkowsku, sitjandi formann félagsins, í færslu sem hann birti í kvöld á Facebook.
Tilefnið er lögfræðileg úttekt sem stjórn Eflingar lét framkvæma á viðskiptum félagsins við Sigur ehf. sem hannaði vefsíðu félagsins.
Stjórn Eflingar birti ályktun um úttektina á vef sínum í dag. Þar segir að niðurstöður skýrslunnar séu að ákvarðanir um samningssamband félagsins við Sigur vefstofu ehf., umfang þess og kostnað hafi ekki verið bornar undir stjórn félagsins með réttum hætti. Með því hafi fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins farið gegn starfsskyldum sínum og heimildum með alvarlegum hætti.
Viðar segir ályktunina vera mátulega óljósa til að gera hann og störf hans tortryggileg. Þá segist hann hvorki hafa fengið skýrsluna afhenta né hafi hann fengið að sjá hana. „Er þetta gert til að tryggja að ég geti engum eðlilegum vörnum haldið uppi fyrir mitt mannorð og starfsheiður,“ segir Viðar.
Neitar sök og segir skýrsluna rógburð
Viðar segist hafa vitað fyrir fram hvernig atburðarásin í tengslum við úttektina yrði enda hafi Agnieszka og félagar hennar beitt álíka aðferðum áður.
„Ég neita því alfarið að hafa á nokkurn hátt „farið gegn starfsskyldum mínum og heimildum“ í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Eflingar. Þessar yfirlýsingar stjórnar Eflingar og lögmannsins Odds Ástráðssonar um mín störf eru ekkert nema innihaldslaus og ómarktækur rógburður,“ segir Viðar.
Hann segist stoltur störfum sínum fyrir Eflingu og segir byltingu hafa verið gerða í sýnileika og þjónustu Eflingar í hans tíð sem framkvæmdastjóri félagsins, með nýjum vef, Mínum síðum, fjölbreyttu myndbandsefni, glæsilegum auglýsingum, gróskumikilli útgáfu og svo framvegis.
„Hin raunverulega misnotkun valdheimilda sem hefur átt sér stað hjá Eflingu er ákvörðun fráfarandi formanns Eflingar að misnota sjóði félagsmanna í persónulegum hefndarleiðangri sínum gegn mér og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem framdi þann glæp að hafa betur lýðræðislegum kosningum í félaginu. Skömm stjórnar Eflingar að hafa stutt fráfarandi formann í þessari vegferð er mikil,“ segir Viðar að lokum.