„Já, ferðamannastraumurinn er farinn að taka við sér. Við sjáum að núna, frá því að höftin voru leyst á ferðir á milli landa um miðjan febrúar eða svo, að þá tók þetta nokkuð við sér,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hann bendir á að bókunarstaða hótela um páskana sé nú í kringum 50 prósent en sé strax komin upp í um 70 prósent yfir sumarmánuðina, sem teljist mjög gott.
„Fólk er farið að bóka ferðir með styttri fyrirvara heldur en áður, þannig að ég held að við getum verið nokkuð viss um að það verði ágæt bókunarstaða hér í sumar.“

Þá er bjart yfir hjá bílaleigum og það má glögglega sjá þegar rýnt er í tölur frá Bílgreinasambandinu, en það sem af er ári hafa bílaleigur keypt 1030 nýja fólksbíla, borið saman við 300 allt árið í fyrra. Þess ber þó að geta að margar þeirra minnkuðu við sig í faraldrinum.
„Síðustu vikur hafa verið annasamar og við erum í raun bara að setja allt á flug eftir covid,“ segir Kristján Bergmann Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Hertz bílaleigu.
„Það er mikið að gera um páskana og það verður mikið að gera í sumar, það er alveg ljóst,“ bætir Kristján við.

Jóhannes Þór tekur undir að bjartir tímar séu fram undan í ferðaþjónustu og spáir því að ferðamannastraumurinn komist í eðlilegt horf eftir um tvö ár og verði þá í kringum 1,8 milljónir á ári.