Ridley Scott er með þekktustu leikstjórum Hollywood og hefur leikstýrt kvikmyndum á borð við Alien, Blade Runner, Gladiator og Thelma & Louise. Kvikmyndir hans eru margverðlaunaðar, bæði á Óskarsverðlaunahátíðinni, BAFTA og Golden Globe.
Fram kemur í tilkynningu frá Bjarti og Veröld að stefnt sé að því að gera kvikmynd eftir Úti sem Scott yrði framleiðandi að, ásamt teymi frá Scott Free og True North á Íslandi. Viðræður eru þegar hafnar við danska leikstjórann Henrik Hansen um að stýra verkinu.
Úti kom út fyrir síðustu jól og er væntanleg á ensku í Bretlandi og Bandaríkjunum í vor. Í framhaldi fylgir svo útgáfa í öðrum löndum. Tímaritið The Times lofsamaði bókina í bókadómi en gagnrýnandi blaðsins sagði Ragnar hafa skapað svo magnað andrúmsloft ofsóknarkenndar og innilokunar að lesendur gætæu vart sleppt taki af bókinni.
Meira en þrjár milljónir eintaka af bókum Ragnars hafa selst um heim allan í alls þrjátíu og sex löndum og því var fagnað um helgina að ein milljón eintaka hafi selst af bókum hans í Frakklandi.