„Ef þessi ákvörðun var tekin í bráðræði hefur hann enn möguleika á að takmarka afleiðingarnar. Um er að ræða ungan mann sem á eins og aðrir möguleika á að bæta sig og standa sig vel í afplánun sem getur aukið líkur á betri afkomu hans að lokinni afplánun,“ segir Páll í samtali við Vísi.
Eins og þegar hefur komið fram hefur lögreglan auglýst eftir fanga sem stakk af frá lögreglu fyrir framan Héraðsdóm Reykjavíkur í gær. Hann heitir Gabríel Douane Boama og er fæddur 2002.
Páll segir það afar mikilvægt að benda á neikvæðar afleiðingar fyrir fangann í tengslum við framgang afplánunar.
„Strok úr afplánun er meðal alvarlegustu agabrota, það getur haft veruleg áhrif á afplánunartíma þannig að í stað þess að hljóta reynslulausn að afplánuðum hluta tímans með vistun í opnum fangelsum og áfangaheimilum á tímabilinu gæti hann þurft að afplána allan tímann í lokuðu fangelsi. Það er því mikilvægt fyrir hann að takamarka afleiðingar með því að gefa sig sem fyrst fram þannig að unnt verði að aðstoða hann og vinna með honum að farsælli afplánun.“
Páll segir að hjá Fangelsismálastofnun starfi hæfir sérfræðingar, sálfræðingar og félagsráðgjafar sem hafa sérfræðiþekkingu á sviðinu. Hann vonar að Gabríel komi í leitirnar áður en verra hlýst af; ekki síst hans sjálfs vegna.