A$AP Rocky var handtekinn þegar hann steig frá borði einkaflugvélar á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles, en hann var á leið frá Barbados þar sem hann hafði dvalið með kærustu sinni, stórstjörnunni Rihönnu. NBC Los Angeles greinir frá.
Hann hafði sætt rannsókn um nokkurt skeið í tengslum við skotárás sem var framin í byrjun nóvember í fyrra. Fórnarlambið sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að rapparinn hafi undið sér upp að honum úti á götu með skammbyssu í hönd. Hann hafi hleypt af þremur eða fjórum skotum og eitt þeirra hafi hæft hann í vinstri hönd.
Í frétt AP um málið segir að Rocky og hinn skotni hafi verið málkunnugir og að skotárásin hafi verið afleiðing deilna milli þeirra.
Ekki í fyrsta sinn sem Rocky brýtur af sér
A$AP Rocky er ekki ókunnugur laganna vörðum en árið 2019 vakti heimssathygli þegar hann var handtekinn fyrir líkamsárás í Svíþjóð. Hann var látinn sæta gæsluvarðhaldi um langa hríð og Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, beitti sér fyrir því að hann yrði látinn laus.
Fór svo á endanum að hann var sakfelldur og dæmdur í skilorðsbundið fangelsi.