Á lista yfir keppendur kennir líkt og síðustu ár ýmissa grasa. Þar er að finna reynslubolta líkt og Dag Sigurðsson sem komst nærri því að fara alla leið í Söngvakeppninni árið 2018 en líka söngvara sem nýlega eru stokknir fram á sjónarsviðið líkt og Birgittu sem gerði garðinn frægan í Idol hér um árið.
Umdeild keppni
Líkt og lesendur Vísis muna var þátttaka Íslands í Eurovision í fyrra umdeild vegna þátttöku Ísraels í Eurovision á meðan hernaði Ísraelsmanna á Gasa stóð. Mikil umræða skapaðist um málið og þrýstingur var mikill á Ríkisútvarpið að bregðast við og draga Ísland úr keppni.
Þar á meðal rituðu tíu þúsund manns nöfn sín á undirskriftalista þar sem skorað var á Ríkisútvarpið að taka ekki þátt. Þá lét íslenskt tónlistarfólk sitt ekki eftir liggja en 550 listamenn settu nöfn sín undir sömu kröfu og var útvarpsstjóra afhentur undirskriftarlistinn.
Á listanum var að finna nöfn margra landsþekktra tónlistarmanna líkt og Páls Óskars, Unu Torfadóttur og Eyþórs Inga, svo einungis örfáir séu nefndir. Á listanum var einnig að finna nöfn keppenda sem nú stíga á svið á Söngvakeppninni.

Þar á meðal er parið Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og Júlí Heiðar Halldórsson sem keppa saman á seinna undanúrslitakvöldinu. Bæði eru þau reynsluboltar þegar kemur að Söngvakeppninni, Þórdís Björk hefur áður keppt með Reykjavíkurdætrum og Júlí Heiðar undir eigin nafni. Þau munu nú ljúka síðari undanúrslitunum með laginu Eldur.
Meðal annarra sem mótmæltu þátttöku Íslands í Eurovision í fyrra en taka nú þátt er hæfileikabúntið Einar Lövdahl. Hann er meðal lagahöfunda að lagi Dags Sigurðssonar, Flugdrekar og sá um að semja íslenska texta lagsins. Þá er tónlistarmaðurinn Birgir Steinn Stefánsson, poppgúrú með meiru og sonur Stefáns Hilmarssonar, einnig meðal lagahöfunda í ár eftir að hafa mótmælt þátttöku Íslands í fyrra. Hann semur lag þeirra Júlí Heiðars og Þórdísar.