Hver ert þú sem hönnuður?
Ég hanna hversdagsklæðnað eða „streetwear". Ég byrjaði námið mitt sem fatahönnuður hér heima í Listaháskólanum en þá var námið mjög nýtt á nálinni. Stefnan sem kennaranir aðhylltust á þeim tíma var hátíska en það hentaði mér alls ekki.
Það var ekki fyrr en ég fór í skiptinám til Amsteram í Gerrit Rieteld skólann sem ég fann mig sem hönnuðinn sem ég er og hef hingað til verið. Ég hanna föt sem henta hvaða tilefni sem er í rauninni, þú getur oft á tíðum verið í sömu flíkinni heima í sófanum, á skíðum eða í brúðkaupi…fer eftir því hvernig þú notar hana.
Hvaða flík valdir þú fyrir verkefnið?
Ég valdi að kynna nýjustu peysuna sem ég hef hannað undir merkinu mínu „Bið að heilsa niðrí Slipp“ eða BAHNS. Hún heitir WATSON eftir hinni frægu áströlsku siglingakonu Jessica Watson. En hún afrekaði það, sextán ára gömul, að sigla ein í 210 daga, hringinn í kringum hnöttinn.
Þessi peysa er fyrsta opna peysan sem ég hanna fyrir merkið en það er svokallað „slow fashion” eða „heritage” merki og lýtur ekki lögmálum tískustraumanna heldur geri ég það sem mér sýnist, þegar merkinu hentar. Nú var kominn tími fyrir fyrstu opnu peysuna, en BAHNS hefur verið við lýði síðan árið 2013.
Hvernig var ferlið að hanna flíkina?
Einfalt ferli, satt best að segja. Ég er lengi búin að vita að tíminn á opna peysu væri kominn hjá BAHNS. Svo bara beið ég þar til ég sá hana ljóslifandi fyrir mér í höfðinu, teiknaði hana upp og sendi á verksmiðjuna. Ég er bara búin að þurfa tvö sýnishorn af henni til að hafa hana rétta, svo vel og lengi lét ég hana malla í höfðinu.
Hvenær byrjaðir þú að hanna föt?
Ef systir mín fengi að svara þessari spurningu þá myndi hún segja frá ellefu ára aldri þar sem ég byrjaði að sauma og prjóna á mig örugglega í kringum þann aldur. Hékk oft í Merkt í Mjóddinni og prentaði á boli sem ég hafði sjálf saumað en mitt svar yrði árið 2008. Þegar ég varð aðstoðarhönnuður brettamerkisins NIKITA, þá fyrst byrjaði ég að hanna föt.
Hvaða þrjú orð lýsa þínum stíl?
Þægilegur, litríkur og einfaldur.

Fatahönnunarfélag Íslands teflir fram þriðju herferð verkefnisins #íslenskflík á Hönnunarmars í ár. Með verkefninu vill Fatahönnunarfélag Íslands vekja athygli fólks á því að staldra við og skoða íslenska fatahönnun næst þegar það fjárfestir í flík og á sama tíma fagna því fólki sem vinnur í faginu á Íslandi.
Verkefnið er unnið af Blóð studio fyrir HönnunarMars. Listrænn stjórnandi verkefnisins er Ási Már Friðriksson og Anna Kristín Óskarsdóttir ljósmyndari fangar hönnuði í sínu náttúrulega umhverfi.
Fólk er hvatt til þess að taka þátt í verkefninu með því að pósta sinni íslenskri flík á samfélagsmiðla og merkja með #íslenskflík.