Skoðun

Kjörið tækifæri

Alexandra Briem skrifar

Hvernig samfélagi langar þig til að búa? Hvernig sérð þú fyrir þér framtíð sveitarfélagsins þíns? Hvernig finnst þér að hlutunum eigi að vera stýrt? Þetta eru spurningarnar sem við svörum á kjördag. En í grunninn snýst þetta líka um stærri spurningu. Hver telur þú að gæti almannahags frekar en sérhagsmuna? Hver telur þú að hafi sterk grunngildi? Hverjum treystir þú?

Um það snúast kosningar. Kannski erum við aldrei 100% sammála neinum, en við getum samt valið. Skoðað möguleikana og valið það sem er best hverju sinni. Því ef við gerum það ekki, þá erum við einfaldlega að leyfa öðrum að ákveða fyrir okkur.

Þau sem standa fastast með sérhagsmunum munu alltaf koma til með að mæta á kjörstað og draga með sér alla sem þau treysta til að kjósa eins. Þau skila ekki auðu og þau sitja ekki heima. Eina leiðin til þess að sporna gegn því er að mæta líka. Láta rödd sína heyrast. Kjósa eitthvað annað.

Við í Pírötum höfum sýnt það að við stöndum alltaf með almannahagsmunum gegn sérhagsmunum, bæði á þingi og í sveitarstjórnum.

Við stöndum með íbúalýðræði, samtali og samráði, við stöndum með aðgengi og manneskjuvænu samfélagi fyrir okkur öll. Við stöndum með gagnsæi og bættri þjónustu. Við stöndum með loftslaginu og við stöndum með mannréttindum. Við höfum staðið vörð um íbúaráð og leiddum vinnuna að nýrri lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar.

Við Píratar stöndum gegn spillingu og við stundum heiðarleg stjórnmál. Alltaf.

Lýðræði á að vera virkara og snúast um meira en það að kjósa sér fulltrúa á fjögurra ára fresti. Það er ekki mjög lýðræðislegt að hver sem fái flest atkvæði hafi frelsi til að haga sér eins og þau vilja þangað til næstu kosningar renna í garð. En til þess að koma í veg fyrir það þurfum við að halda áfram að innleiða slík gildi. Til þess þurfum við líka að kjósa þau gildi þegar kosningar fara fram.

Núna er kjörið tækifæri til að taka afstöðu. Til að heimta heiðarleg stjórnmál.

Núna er kjörið tækifæri til að setja X við P

Höfundur er í öðru sæti á lista Pírata í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×