Skoðun

Skrif­stofan er barn síns tíma

Tómas Ragnarz skrifar

Framkvæmdastjóri Airbnb er afdráttarlaus. Að hans mati er hin hefðbundna skrifstofa, þangað sem fólk sækir vinnu sína á hverjum morgni, dauð. Síðustu tvö ár hafi sýnt svo ekki verður um villst að ein, föst vinnuaðstaða sé „tímaskekkja“ sem eigi rætur að rekja til ótæknivæddra og netlausra starfshátta. Framtíðin eftir faraldurinn sé færanleg.

„Ég tel að skrifstofan eins og við þekkjum hana sé búin að vera. Við getum ekki reynt að halda dauðahaldi í árið 2019, ekki frekar en sjötta áratug síðustu aldar,“ sagði framkvæmdastjórinn Brian Chemsky í samtali við Time á dögunum. Hann spyr áleitinna spurninga. „Ef að skrifstofan væri ekki til, myndum við finna hana upp? Og ef við myndum finna hana upp, til hvers?“

Airbnb hefur sjálft ákveðið að draga markvisst úr mikilvægi skrifstofunnar og gerir nú öllu starfsfólki sínu kleift að vinna þaðan sem það sjálft vill. Hugmyndin sé ekki síst sú að laða til sín hæfileikaríkt starfsfólk hvaðanæva að úr heiminum, sem svo getur unnið hvar sem er í heiminum. Þessi stefnubreyting kemur ekki að ástæðulausu. Síðustu tvö ár í rekstri Airbnb, þegar starfsfólk fyrirtækisins var nær alfarið í fjarvinnu, voru þau afkastamestu í sögu Airbnb.

Félagsverur á fjarfundum

Airbnb er ekki eina fyrirtækið á þessari vegferð. Önnur stórfyrirtæki eins og Google og Apple hafa innleitt blöndu af fjar- og staðvinnu þannig að fólk er aðeins skuldbundið til að mæta nokkrum sinnum í viku á skrifstofuna. Þessari þróun hefur einnig skolað á land hér og nægir þar að nefna stefnu nýja háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins að „nær öll störf“ í ráðuneytinu verði án staðsetningar.

Þrátt fyrir þetta er maðurinn ennþá félagsvera og fólk mun áfram vilja hitta samstarfsfólk sitt. Hvernig er þá best að blanda þessu tvennu saman: Frelsinu til að starfa þar sem maður vill og þörf fólks til að sýna sig og sjá aðra? Ég myndi alla vega telja best að starfsfólk hefði fullkomið frelsi til að mæta þegar því hentar. Fyrrnefndur framkvæmdastjóri Airbnb er sömu skoðunar en bætir við að fyrirtækið sé með eina viku í hverjum ársfjórðungi þar sem fólki er gert að hittast í eigin persónu til skrafs og ráðagerða sem og til að þjappa hópnum betur saman.

En ef þetta er framtíðin, hver er þá tilgangurinn með því að reka eigið húsnæði? Fyrirtæki gætu sparað sér ómælda fjármuni með því að sleppa því einfaldlega að eiga eiginlegar höfuðstöðvar eða skrifstofur. Það ætti því ekki að koma á óvart að sífellt fleiri fyrirtæki muni gefa húsnæði sitt upp á bátinn á komandi árum. En hvar á starfsfólk þá að hittast?

Að mínu mati er lausnin einföld: Sveigjanleg fjarvinnu- og fundaaðstaða. Að um allt land geti fólk nálgast góða vinnuaðstöðu sem það getur sótt í þegar því hentar. Þar sem hópar starfsfólks geta fundað þegar þörf krefur. Þessi vegferð er þegar hafin á Íslandi og innan örfárra ára verður hægt að nálgast góða fjarvinnu- og fundaaðstöðu um allt land, sem fyrirtæki og starfsfólk getur leigt eftir sínum þörfum.

Alvöru byggðastefna

Þessi þróun ætti ekki aðeins að vera á forsendum einkafyrirtækja. Hið opinbera þarf jafnframt að vera sveigjanlegra í sínum skrifstofumálum. Í stað þess að verja skattpeningum í að kaupa eða leigja húsnæði til áratuga dýrum dómum gæti ríkið þess í stað gert samninga við fyrirtæki sem reka fjarvinnuaðstöðu. Það myndi auka allan sveigjanleika og gefa opinberum starfsmönnum meira frelsi í störfum sínum. Þar að auki væri það mikið byggðamál að geta boðið fólki að starfa hvar sem það vill.

Í stað þess að gera þá kröfu að starfsmenn sæki vinnu sína í opinbera stofnun á hverjum morgni, sem flestar eru á höfuðborgarsvæðinu, gætu íbúar landsbyggðarinnar einfaldlega hoppað inn í næstu fjarvinnuaðstöðu í sinni heimabyggð. Það eykur ekki aðeins lífsgæði að geta starfað þar sem maður vill heldur sparar það jafnframt ferðatíma og lengir tímann sem fólk getur varið með fjölskyldum sínum. Styttri ferðatími skilar sér jafnframt í minni útblæstri í samgöngum, minni eldsneytisnotkun og sliti á vegum. Það er því einnig um mikið umhverfismál að ræða.

Eins og Brian Chemsky hjá Airbnb segir þá kippti faraldurinn okkur inn í framtíðina nánast á einni nóttu. Það er okkar að grípa tækifærin sem henni fylgja og við hjá Regus ætlum ekki að láta okkar eftir liggja.

Höfundur er eignandi Regus á Íslandi




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×