Starfshópurinn, sem var skipaður af forsætisráðherra í febrúar, kynnti niðurstöður sínar í dag en alls voru lagðar fram 28 tillögur að umbætum í sjö flokkum.
Um er að ræða aðgerðir sem miða að því að auka framboð til að mæta uppsafnaðri og fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa til skemmri og lengri tíma, stuðla að auknum stöðugleika og bæta almennt stöðuna á húsnæðismarkaði.
Mikil óvissa er nú til staðar þar sem eftirspurnin er töluvert meiri en framboðið og íbúðaverð heldur áfram að hækka. Því sé mikilvægt að bregðast við.
„Þetta er ekki eitthvað sem gerist á núll einni, þetta tekur allt tíma,“ segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, formaður starfshópsins og aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
„Að leggja áherslu á trygga uppbyggingu og stöðuga uppbyggingu, það er í rauninni eina meðalið sem er hægt að koma með núna inn á þennan markað, það er aukið framboð,“ segir hún enn fremur.
Til þess að örva framboðið þurfi að efla áætlanagerð, samþætta ferla, endurskoða löggjöf, tryggja uppbyggingu samgönguinnviða, auka húsnæðisöryggi leigjenda og lækka byrði húsnæðiskostnaðar hjá efnaminni leigjendum.
Nauðsynlegt að byggja mikið
Fyrsta tillaga starfshópsins er að ríkið og sveitarfélög geri samkomulag um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á landsvísu á næstu tíu árum.
„Það þarf algjörlega að spýta í og það er í rauninni það sem við sem við erum að reyna að tryggja núna með því að leggja það til að ríki og sveitarfélög geri þennan rammasamning og geri síðan samninga á þeim grundvelli, það er að tryggja þessa uppbyggingu, þessa nauðsynlegu uppbyggingu,“ segir Anna
Byggja þarf fjögur þúsund íbúðir á hverju ári næstu fimm árin og þrjú þúsund á ári næstu fimm ár þar á eftir til að áætlunin gangi eftir. Bráðabirgðatölur sýna að um 3.200 íbúðir voru byggðar í fyrra en áætlað er að tæplega 2.800 íbúðir verði byggðar í ár og tæplega 3.100 árið 2023.

„Það þarf að byggja meira og það er ekki nóg að byggja bara meira heldur þurfum við líka að tryggja íbúðir sem eru á viðráðanlegu verði, það er að segja hagkvæmar íbúðir,“ segir Anna.
Á grundvelli tillagnanna munu stjórnvöld nú þegar leggja áherslu á aukna uppbyggingu íbúða, endurbættan húsnæðisstuðning og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Þó það kunni að taka tíma að framkvæma þær aðgerðir sem starfshópurinn leggur til eru bjartari tímar fram undan.
„Við erum að vonast til þess að ef það er bara yfirlýst markmið og yfirlýst áætlun um uppbyggingu, að þá sé líka aukinn fyrirsjáanleiki með það og fólk aðeins róist. Það er ekki verið að selja síðustu íbúðina, það eru að koma fleiri,“ segir Anna.