Leiguverð hefur hækkað talsvert á síðustu misserum og virðist ekkert lát vera á hækkunum. Verkalýðshreyfingin hefur varað alvarlega við þróuninni og hvatt stjórnvöld til að grípa í taumana.
Viðskiptaráðherra sagði á dögunum að skoða þyrfti það alvarlega að setja hömlur á hækkun leiguverðs. Forsætisráðherra sagðist þá tilbúin til að skoða leiguþak en innviðaráðherra sagði þau skorta betri upplýsingar til að geta tekið ákvörðun í þeim málum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að fara þurfi varlega þegar kemur að aðgerðum á borð við leiguþak.
„Ég hef haft áhyggjur af því að með því að setja of ströng skilyrði á leigumarkað þá geti menn einfaldlega verið að skaða framboðið og það er akkúrat öfugt við það sem við viljum vera að gera,“ segir Bjarni.
Hann segir þó mikilvægt að huga að stöðu leigjenda og stuðla að frekara jafnvægi milli leigjenda og leigusala.
„Ég held að við getum gert umbætur á leigumarkaði sem að skipta máli, en við þurfum að gæta okkar að fara ekki að fikta í hlutum sem að geta á endanum leitt til þess að minna verður af framboðnu leiguhúsnæði,“ segir hann.
Þarf að bregðast hratt við húsnæðisvandanum
Starfshópur á vegum þjóðhagsráðs skilaði inn tillögum að umbætum á húsnæðismarkaði í vikunni, þar á meðal á leigumarkaði, en í grunninn er ljóst að það þurfi að auka framboð verulega.
Starfshópurinn leggur til að 35 þúsund íbúðir verði byggðar á næstu tíu árum. Ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga munu nú hefja viðræður um byggingu 4.000 íbúða á landsvísu á ári næstu fimm árin og 3.500 árlega næstu fimm ár þar á eftir.
„Þetta er góð byrjun en útfærslan er að verulegu leiti eftir og við þurfum að ná þessum rammasamningumvið sveitarfélögin. Við þurfum líka að sjá til þess að það sé einfaldlega framkvæmdageta í landinu en við erum búin að kortleggja það sem þarf að gera og erum þess vegna komin vel af stað,“ segir Bjarni.
Ýmsar áskoranir eru þó til staðar, til að mynda hvernig mannfjöldinn er að þróast innanlands auk þess sem mikið innflutt vinnuafl er hér á landi. „Það er ofboðslegur húsnæðisvandi í augnablikinu sem að verður að bregðast hratt við,“ segir hann.
Er raunhæft að þetta gerist á næstu tíu árum?
„Já, ég held að þetta sé alveg raunhæft en þetta gerist ekki af sjálfu sér,“ segir Bjarni.