Skoðun

Sárs­auka­fullar vaxta­hækkanir fram­undan

Halldór Kári Sigurðarson skrifar

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% í apríl sem þýðir að húsnæðisverð hefur hækkað um 8,5% á þremur mánuðum. Árshækkunartakturinn stendur nánast í stað og er nú 22,3%.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Ef litið er á húsnæðisverðsþróun eftir sveitarfélögum og hverfum má sjá að hvað mestar hækkanir hafa verið í Breiðholti, Árbænum og miðbænum. Miklar verðhækkanir í Breiðholti og Árbæ skýrast e.t.v af því að fólk hefur sótt í ódýrari svæði í þeim miklu verðhækkunum sem hafa átt sér stað undanfarið ár. Í miðbænum eru það svo nýbyggðar lúxusíbúðir sem valda mikilli hækkun á meðalfermetraverði.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Þessar verðhækkanir þrýsta á verðbólguna sem mælist nú 7,6% og útlit er fyrir að hún eigi eftir að aukast enn frekar. Í nýjustu útgáfu peningamála hækkaði Seðlabankinn verðbólguspá sína töluvert og fer toppurinn úr 5,8% upp í 8,1%.

Ætli peningastefnunefnd sér að ná verðbólgunni niður úr 8% í u.þ.b. 4% á einu ári líkt og nýjasta spáin segir til um er ljóst að það þarf að beita vaxtatækinu óspart. Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans verður kynnt 22. júní og ekki við öðru að búast en frekari vaxtahækkun í ljósi stöðunnar.

Heimildir: Seðlabanki Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Í lágvaxtaumhverfinu sem fylgdi heimsfaraldrinum og út apríl sl. námu nettó húsnæðislán bankanna á breytilegum vöxtum til heimilanna 410 ma.kr. Það er því ákveðinn hópur sem er mjög viðkvæmur fyrir frekari vaxtahækkunum þrátt fyrir að heimilin hafi verið hrifnari af föstum vöxtum undanfarið ár.

Heimildir: Seðlabanki Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Ofan á það leggst að fastir óverðtryggðir vextir eru nú bilinu 6,10-6,85% og því einnig kostnaðarsamt að festa vextina á þessum tímapunkti.

Horft fram á við má vænta þess að aukinn vaxtabyrði muni hægja talsvert á markaðnum auk þess sem aukið framboð mun draga úr ójafnvægi markaðarins með haustinu. Þá má ætla að raunverðshækkanir verði takmarkaðar í haust og á næsta ári.

Höfundur er hagfræðingur Húsaskjóls. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×