Furðu hefur vakið að lögreglumenn biðu í klukkustund með að ráðast til atlögu við byssumanninn eftir að hann réðst inn í Robb-grunnskólann í bænum Uvalde í síðustu viku. Á meðan reyndu börnin í örvæntingu að hringja í neyðarlínu og grátbiðja um aðstoð.
Fram hefur komið að Pete Arredondo, lögreglustjóri skólaumdæmisins, hafi talið að morðinginn hefði læst sig inni í skólastofu og að ekki væri lengur virk hætta af honum. Bandaríska dómsmálaráðuneytið ætlar að rannsaka viðbrögð lögreglunnar en slíkt er sagt fremur fátítt.
Roland Gutierrez, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins frá Uvalde á ríkisþingi Texas, sagði á fréttamannafundi í gær að Arredondo hefði ekki fengið upplýsingar um símtöl barnanna í neyðarlínuna. Óljóst sé hver á vettvanginum hafi vitað af þeim.
„Ég vil sérstaklega vita hver tók á móti hringingunum í neyðarlínuna,“ sagði Gutierrez á tilfinningasömum blaðamannafundinum, að sögn AP-fréttastofunnar.
Arredondo hefur ekkert tjáð sig um atburðina. Lýsingar lögreglu á tímalínu árásarinnar og viðbragða hennar sjálfrar hafa tekið töluverðum breytingum og sumar þeirra hafa verið dregnar til baka.
Gutierrez gagnrýndi Greg Abbott, ríkisstjóra, sérstaklega vegna mistaka lögreglunnar. Hann er á meðal þingmanna sem hafa hvatt Abbott til að kalla ríkisþingið saman til aukafundar vegna skotárásarinnar en það á ekki að koma næst saman fyrr en í janúar.
„Það voru mistök gerð á öllum stigum, þar á meðal af hálfu löggjafans. Greg Abbott ber mikla ábyrgð á þessu öllu,“ sagði þingmaðurinn.