Skoðun

Iðn­menntun og fast­eigna­skattar

Drífa Snædal skrifar

Á fimmtudag var tíunda þing Samiðnar sett, en Samiðn er eitt af aðildarsamtökum ASÍ og vettvangur fagfólks í ýmsum iðngreinum. Mér hlaust sá heiður að ávarpa setninguna og lagði út frá nauðsyn þess að skólakerfið okkar gæti sinnt þeim fjölmörgu sem hafa áhuga á iðn- og tæknimenntun á öllum aldri. Í fyrra var 700 manns vísað frá iðn- og tæknimenntun og óttast er að það verði fleiri næsta vetur. Að auki er orðið erfitt um vik að bjóða aðfluttu fólki raunfærnimat því skólarnir eru misvel í stakk búnir til að taka við fólki sem hefur fengið hluta námsins metið. Ekki einungis erum við þannig að vísa frá fólki með vilja og áhuga á að læra iðn- og tæknigreinar heldur tekst okkur ekki að aðstoða aðflutt fólk að fá sína menntun og reynslu metna í nægjanlegum mæli. Þetta er á sama tíma og okkur sárvantar iðnaðarmenn þar sem grettistak í húsbyggingum er framundan og metfjöldi hælisleitenda hafa sótt um með þekkingu og reynslu, en líka í húsnæðisþörf.

Einn helsti kostur okkar menntakerfis hefur verið sveigjanleiki og ég tel sjálfa mig vera afsprengi þess. Eins og svo mörg önnur hafði ég ekki hugmynd um framan af hvað mig langaði að gera. Ég flakkaði á milli fjölbrautar, háskóla og iðnskóla á yngri árum – svona eins og mörg gera. Auðvitað hafði öll menntun og reynsla mótandi áhrif, hvort sem hún endaði með brottfalli eða brautskrift, en annað og þriðja tækifæri reyndist nauðsynlegt í mínu tilviki sem er langt í frá einsdæmi. Að skilyrða inngöngu í menntun við aldur er feigðarflan því við sem tókum seinna við okkur vitum að við vorum síður en svo verri námsmenn eftir að smá lífsreynsla bættist í púkkið. Eftir samtal við fulltrúa á Samiðnarþinginu er ljóst að úrbætur í menntun standa iðnaðarmönnum nærri. Nægt framboð af iðn- og tæknimenntun verður örugglega eitt af áhersluatriðum í tengslum við kjarasamninga. Ef við svörum ekki kallinu er hætt við að fagmennska og vandað handbragð víki fyrir vanþekkingu og minnkandi framleiðni. Það viljum við síst af öllu að gerist og slíkt getur reynst dýrkeypt til lengdar.

Fasteignamatshækkun sem á sér varla hliðstæðu

Um mál málanna í vikunni vil ég þetta segja; nú reynir á nýkjörið sveitastjórnarfólk að láta hækkandi fasteignamat ekki fara sjálfkrafa inn í fasteignaskattana heldur endurmeta hlutfallið sem reiknað er eftir. Við munum fylgjast vel með því í haust þegar fjármálaákvarðanir sveitarstjórna fyrir árið 2023 eru teknar. Næsta vers er svo að endurmeta fasteignamatið sjálft og útreikninga á því. Nú verðum við að leggjast á eitt að stemma stigu við dýrtíð sem nú þegar er sligandi fyrir pyngjur heimilanna.

Góða helgi,

Drífa

Höfundur er forseti ASÍ. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×