Vörukarfan hækkaði á bilinu 5-17%, mest hjá Heimkaup en minnst í Krónunni. Í tilkynningu frá ASÍ segir að þetta sé í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs á sama tímabili sem sýnir 6,2% hækkun á mat- og drykkjarvöru.
„Við svo sem sáum svipaðar hækkanir og svona mikið stökk í verði hérna á fyrstu mánuðum í Covid en þetta eru auðvitað miklar hækkanir á stuttum tíma,“ segir Auður Alfa Ólafsdóttir verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ.
Auður segir mjólkurvörur og osta vera það sem hækkar mest.
„Við erum að sjá auðvitað bara að það eru þarna flokkar matvöru að hækka mjög mikið sem vega mjög þungt í innkaupum. Flokkar eins og mjólk, ostar og egg, kjöt og eins brauð og kornvara.“
Hún segir hækkanir sem þessar hafa áhrif á kjör fólks. Þó að ljóst sé að verð á ýmsum aðföngum hafi hækkað til dæmis á áburði sem endurspeglist í hærra verði á mjólk, osti og kjöti þá telur hún engu að síður svigrúm hjá verslunum til að halda aftur af hækkunum.
„Það eru ekki allir kostnaðarþættir að hækka um þessar mundir og ýmislegt sem að hefur líka breyst í rekstrarumhverfi þessar fyrirtækja, matvöruverslana, og fleiri sem að hefur verið til hins betra á síðustu tveimur þremur árum. Til dæmis aukin sjálfvirkni og svo framvegis og svo erum við auðvitað að sjá það að það er bara mjög góð afkoma hjá matvöruverslanakeðjum. Þannig að það rímar ekki alveg við þetta að þessar hækkanir séu óumflýjanlegar. Þetta er alltaf spurning um upp að hvaða marki er eðlilegt að hækkanir á aðföngum komi fram í verðlagi.“