Erlendur ferðamaður á áttræðisaldri lést í Reynisfjöru í gær. Hann var staddur í fjörunni ásamt eiginkonu sinni í skipulagðri ferð með leiðsögumanni. Viðvörunarskilti eru í fjörunni en nokkur banaslys hafa orðið þar á undanförnum árum.
Fyrr í dag sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, erfitt að meta hvað annað væri hægt að gera en takmarka aðgengi að fjörunni til að koma í veg fyrir slys.
Leiðsögumaðurinn Dagur Gunnarsson tók í dag meðfylgjandi myndband sem hann birti á Facebook. Þar má sjá hóp ferðamanna lenda í vandræðum í flæðarmálinu.
Sex ferðamenn, sem Dagur segir vera frá Þýskalandi, urðu fyrir öldu og drógust með henni neðar í flæðarmálið. Einum þeirra tókst ekki að standa upp og lenti í frekari vandræðum. Aðrir komu honum þó til bjargar.
Myndband Dags má sjá hér að neðan.