Í breytingartillögu meirihlutaflokkanna á þriðja áfanga Rammaáætlunar er tvennt sem stingur náttúruverndarsinna mjög.
Bæði Héraðsvötn og Kjalöldur í Þjórsá eru þar færð úr verndarflokki og í biðflokk.
„Við teljum þessa ákvörðun meirihlutans ekki byggja á neinum faglegum rökum. Það hefur ekkert komið fram sem réttlætir þetta annað en að það eru einhver svona pólitísk hrossakaup um það að reyna að ná jafnvægi á milli flokkanna til að ná að klára þetta,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sem er einn þeirra þingmanna sem leggja fram aðra breytingartillögu, þar sem þessir kostir eru áfram í vernd.
Með honum á tillögunni eru þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar, þær Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Ekki með mikið afl í málþóf
Stuttur tími er til stefnu en þingmenn gera ráð fyrir að klára þinghald á morgun áður en þeir fara í sumarhlé.
Ágæt sátt virðist hafa náðst um þinglok - en hvernig sjá þingmennirnir þá fyrir sér að ná breytingunum fram?
„Ég bara bind vonir við að fólk sjái ljósið af því að þarna er ekki verið að sýna Rammaáætlun sem verkfæri virðingu. Það eru ekki notuð faglegu rökin sem þarf til að taka einhverjar ákvarðanir um tilfærslu,“ segir Andrés Ingi.
Hann svarar því ekki beint hvort til greina komi að fara í málþóf vegna Rammaáætlunar.
„Ég veit ekki hvaða afl við höfum í það. En við munum allavega berjast fyrir þessu.“

Mótmæla áformunum í dag
Umhverfissinnar munu mótmæla tilfærslu þessara kosta úr verndarflokki á Austurvelli klukkan 17 í dag.
„Ég skil þau bara mjög vel. Það er ofboðslega eðlilegt að náttúruverndarhreyfingin láti heyra í sér þegar það fær þessa blautu tusku framan í sig og ég vona að sem flest inni í húsinu hlusti á þau og sýni að þau hafi tekið mark á fólki með því að styðja tillöguna okkar í atkvæðagreiðslu,“ segir Andrés Ingi.
Rammaáætlun verður rædd á þingi í dag og gera menn fastlega ráð fyrir því að hún verði samþykkt í þeirri mynd sem ríkisstjórnin leggur upp með, þrátt fyrir að einhver óeining hafi myndast innan þingflokks Vinstri grænna um þetta mál.