Víkingur mætir Levadia Tallinn frá Eistlandi í undanúrslitum umspilsins þriðjudaginn næsta, 21. júní. Vinnist sá leikur bíður þeirra úrslitaleikur gegn annað hvort La Fiorita frá San Marínó eða Inter d'Escaldes frá Andorra.
Fagni Víkingar sigri þar mæta þeir Malmö FF, undir stjórn fyrrum leikmanns og þjálfara Víkings, Milos Milojevic í fyrstu umferð í undankeppni Meistaradeildarinnar.
Þeir færast aftur á móti í Sambandsdeildina ef þeir tapa fyrir Levadia eða í úrslitaleiknum í forkeppninni. Munur er á hvaða mótherja þeir dragast gegn eftir því á hvoru stigi þeir detta út, ef af því kemur.
Leikur Víkings og Levadia er klukkan 19:30 á þriðjudagskvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.
Mögulegir mótherjar Víkings
Ef Víkingur vinnur umspilsmótið mætir liðið Malmö FF í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar.
Tapist einvígið gegn Malmö mætir Víkingur annað hvort New Saints frá Wales eða Linfield frá Norður-Írlandi í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu.
Vinni Víkingur lið Malmö mætir liðið annað hvort Ballkani frá Kósóvó eða Zalgiris frá Litáen í 2. umferð Meistaradeildarinnar
Ef Víkingur tapar fyrir Levadia í undanúrslitum umspilsins á þriðjudag fer liðið í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu og mætir annað hvort Shamrock Rovers frá Írlandi eða Hibernians frá Möltu.
Ef Víkingar tapa úrslitaleik umspilsins fara þeir sömuleiðis í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu og mæta annað hvort Pyunik frá Armeníu eða CFR Cluj frá Rúmeníu.
Mögulegir mótherjar Blika og KR
Breiðablik og KR eru hin tvö íslensku liðin í Evrópukeppnum UEFA í ár og eru bæði í Sambandsdeildinni.
Breiðablik mætir Santa Coloma frá Andorra í 1. umferð Sambandsdeildarinnar og vinnist það einvígi bíða þeirra annað hvort Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi eða Llapi frá Kósóvó í 2. umferð.
KR mætir sterku liði Pogon Szczecin frá Póllandi í 1. umferð. Hafi þeir betur munu þeir mæta Bröndby frá Danmörku í 2. umferð.