Áður en bólusetningar geta hafist þarf Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna að ákveða hvort og þá hvaða bóluefni verða notuð en tveir valkostir eru í boði, efni frá Pfizer og Moderna en bæði fyrirtæki hafa blandað ný bóluefni sem eru ætluð ungum börnum. Ekki er útilokað að bæði bóluefnin verði fyrir valinu.
Dr. Rochelle Walensky, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, hefur ákvörðunarvald um það hvort börn verði bólusett frá sex mánaða aldri, að því er segir í frétt AP um málið.
Þar segir að Walensky hafi komið fyrir þingnefnd í gær og tjáð öldungardeildarþingmönnum að starfsfólk hennar myndi vinna yfir helgina til að komast að niðurstöðu sem fyrst. Það þykir merkilegt fyrir þær sakir að frídagur er í Bandaríkjum 19. maí en þá minnast Bandaríkjamenn þess þegar þrælar voru frelsaðir.
Segir nauðsynlegt að verja börnin
Walensky sagði að ungbarnadauði af völdum Covid-19 væri meiri en af völdum árstíðabundinnar inflúensu.
„Þess vegna tel ég að við verðum að vernda ung börn. Auk þess að verja aðra með bóluefninu og sér í lagi að verja eldra fólk,“ segir Walensky.
Gefi Walensky grænt ljós á bólusetningar ungbarna mun foreldrum standa til boða að láta bólusetja börn sín með bóluefni Pfizer, sem er veitt í þremur skömmtum sem hafa tíu prósent af styrk bóluefnis sem fullorðnir fá eða með bóluefni Moderna sem er veitt í tveimur skömmtum sem hafa um fjórðung styrks venjulegs bóluefnis fyrirtækisins.