Á vef KSÍ segir að KR og Valur hafi sent inn sameiginlega umsókn. Alls voru 23 umsóknir sendar inn og 11 fengu styrk frá UEFA, þar á meðal umsókn KR og Vals. Styrkurinn er upp á 30 þúsund evrur eða rétt rúmlega fjórar milljónir íslenskra króna.
Heitir „Velkomin í hverfið ykkar“ (e. Welcome to your neighbourhood) og er samstarfsverkefni þessara fornu fjenda. Markmið KR og Vals er að koma saman og aðstoða flóttafólk við að aðlagast samfélaginu í miðborg Reykjavíkur, Hlíðum og Vesturbæ.
Vel gert @KRreykjavik og @valursport - til hamingju með þetta og gangi ykkur vel með þetta góða verkefni! https://t.co/yDrvGwvb7a
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) June 21, 2022
Ætla KR og Valur að gera það með samvinnu skóla og Þjónustumiðstöðvar Miðborgar, Vesturbæjar og Hlíða. Stefnt er að því að virkja foreldra barna í þessum hóp og þannig vonast til að þau verði partur af samfélaginu og auka þannig líkurnar á þátttöku barna þeirra í knattspyrnu.
„Hægt er að sækja um styrk fyrir ný verkefni, eða verkefni sem þegar eru hafin og getur upphæð styrksins numið allt að 40.000 evrum, og að hámarki 70 prósent af kostnaði. Ekki er hægt að sækja um styrk fyrir verkefni sem er lokið og hvert knattspyrnusamband (aðildarland) UEFA getur sent eina umsókn,“ segir á vef KSÍ en þar má lesa nánar um verkefnið.