Netflix er enn sú streymisveita sem státar af flestum áskrifendum, um 220 milljón talsins.
Netflix hefur hins vegar átt undir högg að sækja vegna aukinnar samkeppni frá samkeppnisaðilum á borð við Disney Plus og Amazon Prime.
Það hefur gert það að verkum að áskrifendum Netflix fer fækkandi. Samhliða því er tekjuvöxtur Netflix minni en áætlað var. Þannig tilkynnti fyrirtækið í apríl síðastliðnum að áskrifendum hefði fækkað á milli mánaða. Var það í fyrsta skipti í áratug sem það gerðist.
Í maí var 150 starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp og nú bætast við þrjú hundruð í viðbót.
Netflix skoðar nú möguleikann á því að bæta við ódýrari áskriftarleið sem myndi innihalda auglýsingar, í von um auknar tekjur.