Skoðun

Eining um stjórn Landspítala

Willum Þór Þórsson skrifar

Við stöndum frammi fyrir því að á næstu 20 árum mun Íslendingum yfir 65 ára aldri fjölga um 40 þúsund. Það er ekki valkostur að gera alltaf meira af því sama. Margt sem gekk í fortíð gengur ekki endilega upp í nútíð. Tækni- og vísindaframfarir ásamt vinnuumhverfi sem einkennist af samvinnu og liðsheild eru lykillinn að því að tryggja að þjóðarsjúkrahúsið geti sinnt hlutverki sínu. Landspítalinn verður að aðlagast í samræmi við breyttar þarfir þjóðarinnar. Það var því ánægjulegt að Alþingi samþykkti frumvarp til laga um skipan stjórnar Landspítala.

Rekstur heilbrigðisstofnanna er ekki hefðbundinn fyrirtækjarekstur. Til marks um það hefur nú í lögum verið tryggð aðkoma fagráðs og starfsfólks að stjórninni. Einnig hefur 7 manna notendaráð verið skilgreint til að tryggja rödd notenda þjónustunnar og er það nýmæli og framfaraskref. Gagnvart sjúklingum og starfsfólki Landspítalans mun skipan stjórnar styrkja stefnumótun, rekstur og ákvarðanatöku innan spítalans sem skilar sér í bættu starfsumhverfi, þjónustu og getu kerfisins til að takast á við framtíðaráskoranir.

Sjaldan er einföld lausn á flóknum málum

Meginmarkmið lagasetningarinnar er að styrkja stöðu og hlutverk spítalans í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Landspítalinn er lang stærsti vinnustaður Íslands. Það eru skilgreind um 240 mismunandi störf innan veggja hans, starfsmenn eru um 6000 og heildarvelta hans er um 97 milljarðar á ári. Það er áþekk fjárhæð og mörg stærri félög í Kauphöll Íslands velta. Helstu spítalar Norðurlandanna eru reknir eftir rekstararmódeli þar sem stjórn veitir forstjóra og stjórnendum stuðning og rýni í ákvarðanatöku sinni í samræmi við vilja ráðherra. Slíkt fyrirkomulag tryggir ábyrga og vel ígrundaða ákvarðanatöku. Ekki aðeins út frá rekstri heldur út frá heildarhagsmunum sjúklinga, starfsmanna og þjóðarinnar allrar.

Það er mikilvægt við uppbyggingu íslensks heilbrigðiskerfis að horft sé til erlendra fyrirmynda til þess að læra og tileinka okkur það sem best er gert hjá nágrannaþjóðum okkar. Að stýra heilbrigðisstofnun er flókið og sá sem stendur í stafni hverju sinni þarf að hafa stuðning. Stuðningur þarf að berast úr fleiri en einni átt og því þarf stjórn sem hefur víðtæka reynslu og þekkingu.

Allt að vinna en engu að tapa

Aðlögunarhæfni og þrautseigja heilbrigðiskerfisins hefur margsannað sig og nú síðast í Covid-19 faraldrinum. Stundum þarf að stíga eitt skref aftur á bak til að taka tvö skref áfram. Við höfum sjaldan verið í betri stöðu til að læra af fortíðinni og taka áræðin skref fram á við. Skref sem byggja á traustum og framsýnum rekstri sjúkrahúsa til að undirbúa íslensku þjóðina til framtíðar.

Það hafa allir skilning á því að heilsa þjóðarinnar verður vart metin til fjár. Heilbrigðiskerfið er sameign Íslendinga sem endurspeglaðist í því að í atkvæðagreiðslu þingsins var enginn mótfallinn frumvarpinu. Það er því gleðilegt að jafn breið samstaða hafi náðst um þetta framfararmál til að treysta frekar rekstrargrundvöll Landspítala. Rekstur sem þarf stöðugt að endurmeta til að færa þjóðinni bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Höfundur er heilbrigðisráðherra.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×