Moore krafðist þess að Cohen myndi borga sér 95 milljónir dollara vegna þáttarins en að hans sögn lét Cohen það líta út fyrir að Moore væri barnaníðingur og nauðgari.
Í þættinum þóttist Cohen vera ísraelski herforinginn Erran Morad sem ætlaði að sýna dómaranum fyrrverandi nýja tækni frá Ísrael. Hann sýndi honum tæki sem átti að geta mælt efni í mannslíkamanum sem gefur til kynna hvort einstaklingur sé barnaníðingur eða ekki.
Tækið gaf ekki frá sér hljóð þegar það var sett upp við líkama Cohen og starfsmanna hans en pípti stanslaust þegar það var sett upp við Moore. Honum var ekki skemmt við þetta og gekk út úr viðtalinu.
Samkvæmt dómnum afsalaði Moore sér rétti sínum til að ákæra Cohen þegar hann skrifaði undir samning fyrir þáttinn sem staðfesti að viðtalið mætti sýna í sjónvarpinu. Moore taldi að í viðtalinu yrði honum veitt verðlaun fyrir stuðning sinn við Ísraelsríki.