Breska ríkisútvarpið ræddi við Pratheem sem starfar sem bílstjóri. Hann keyrir fólk til og frá flugvellinum í Colombo en einungis þeir sem vinna við akstur mega kaupa eldsneyti vegna skorts.
Raðirnar sem bílstjórar bíða í eru margar hverjar nokkrir kílómetrar og ganga þær afar hægt. Bílstjórar fá ekki einu sinni að fylla tankinn vegna skortsins og því líður ekki langur tími þar til þeir mæta aftur aftast í röðina.
Pratheem er heppnari en flestir þar sem hann fær að fara heim til sín í nokkra tíma á dag á meðan bróðir hans eða sonur leysa hann af. Þá kemst hann í sturtu og fer á klósettið. Aðrir ökumenn sem breska ríkisútvarpið ræddi við lifa ekki við þann lúxus.
Guna og Nisantha starfa fyrir rútufyrirtæki og býr hvorugur þeirra í Colombo. Þeir hafa þurft að notast við almenningssalerni til að halda hreinlætinu en það kostar sitt.
Ástandið í Srí Lanka versnar með hverjum deginum en bæði forsætisráðherrann og forsetinn hafa sagt af sér nýlega eftir mikil mótmæli. Forsetinn er grunaður um mikla spillingu en Srí Lanka hefur aldrei verið jafn illa statt fjárhagslega.