Í morgun var greint frá því að skólastarf í Fossvogsskóla hefjist aftur í haust þrátt fyrir að einhverjum verklegum þáttum verði ekki lokið við upphaf kennslu. Til dæmis verða mötuneyti og íþróttahús skólans ekki í notkun.
Í samtali við fréttastofu segir Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, að Hjálpræðisherinn muni senda nemendum skólans mat, líkt og hefur verið gert upp á síðkastið. Þá muni nemendur borða matinn í skólastofum sínum.
„Víkingur hefur hleypt okkur inn í Víkina þannig við verðum með íþróttir þar. Síðan er kaffistofa starfsmanna er líka í Meginlandinu en það er búið að útbúa hana í færanlega húsinu sem við vorum í í vetur og verðum áfram í,“ segir Hafdís.
Meginland er eina álma skólans sem verður ekki opnuð í haust og verður allt skólastarf í álmunum Austurland og Vesturland. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um afdrif Meginlands en foreldrar hafa farið fram á að hún verði rifin en borgin heldur í vonina um að nýta megi álmuna með verulegum breytingum.
Allir nemendur skólans verða í Fossvogsdal næsta haust en á tímabili var skólinn með aðsetur í húsnæði Hjálpræðishersins.