
Volodymyr Zelenskyy var yfirvegaður þar sem hann gekk um hafnarsvæðið í stuttermabol í dag. Hann bar þess ekki merki að rússneska leyniþjónustan sæti um líf hans og Rússar hefðu nýlega gert eldflaugaárás á Odessa og hafnarsvæðið þar. Hann fékk munnlega skýrslu um stöðu mála og var viðstaddur þegar verið var að dæla korni um borð í fyrsta skipið.
„Þetta er tyrkneskt skip sem ég stend hérna við. Þetta gefur til kynna að höfnin hafi tekið til starfa. Það mikilvægasta fyrir okkur er að höfnin og fólkið geti starfað,“ sagði forsetinn.

Allt væri til reiðu Úkraínu meginn til að hefja útflutninginn. Nú væri bara beðið eftir merki frá samhæfingarmiðstöð í Tyrklandi.
„Um leið og Tyrkir og Sameinuðu þjóðirnar gefa merki um að þeir séu tilbúnir að taka við farminum og að við getum hafið útflutning byrjar þetta allt. Ég held að ferlið muni hefjast í dag eða á morgun“, sagði Zelenskyy.

Yuzhny, Odessa og Chornomorsk eru aðalútflutningshafnir Úkraínu og er allt til reiðu í þeim tveimur síðar nefndu. Flytja þarf út um 20 milljónir tonna af korni og mikið af áburði á þeim 120 dögum sem samkomulag Úkraínumanna og Rússa fyrir milligöngu Tyrkja og Sameinuðu þjóðanna um útflutninginn nær til.
Samhæfingarmiðstöð skipuð fulltrúum þessara aðila var formlega opnuð í Istanbúl í Tyrklandi í gær. Þaðan verður öllum flutningunum stjórnað.

Hulusi Akar varnarmálaráðherra Tyrklands segir að fylgst verði með skipunum með aðstoð gervihnatta og öðrum samskiptum. Fylgst verði með lestun þeirra í Úkraínu og farmur þeirra skoðaður í Tyrklandi áður en skipin haldi lengra. Ekki þurfi að slægja upp tundurdufl vegna siglinganna að þessu sinni.
„Starfsmennirnir í þessari miðstöð vita að augu heimsins hvíla á þeim. Það er von okkar að með samvinnu og vel heppnuðu starfi muni miðstöðin ná hámarksframlagi til mannúðarþarfa og friðar,“ sagði tyrkneski varnarmálaráðherrann í dag.