Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kom nefnilega af fjöllum þegar blaðamaður spurði hann út í rafskúturnar. Ástæða fyrirspurnarinnar er myndband sem birtist á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem tveir lögreglumenn sjást renna sér í mestu makindum á rafskútum skammt frá lögreglustöðinni á Hverfisgötu.
„Nei, við höfum ekki byrjað að nota rafskútur sem fararskjóta, þetta hefur verið eitthvað flipp,“ segir Jóhann í samtali við fréttastofu. Hann segir rafskútur vera til taks hjá embættinu fyrir lögmenn eða aðra hjá embættinu sem þurfa að sækja fundi í miðbænum eða dómþing.
„Veðráttan hér á landi býður ekki alveg upp á rafskútur, einhvern tímann voru menn nú að stinga upp á því að nota SegWay en nei, við höfum engin not fyrir það. Fyrir utan það þyrftum við að komast hraðar en 25 kílómetra hraða en það má auðvitað ekki á rafskútum.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók upp á því fyrir nokkrum árum að nota hjól sem fararskjóta og segir Jóhann það hafa reynst vel.
„Það er mjög þægilegt þegar það er mikill mannsöfnuður í bænum, þá erum við mjög fljótir á staðinn ef það eru einhver útköll, einhver meiðist eða eitthvað slíkt. Á góðviðrisdögum leggja menn bílnum og eru á hjólinu til að auka sýnileika. Það skiptir ekki máli hvernig lögreglan kemur á staðinn en menn kalla svo á bíl ef að þarf að flytja einhvern.“