Ráðamenn í Taipei hafa heitið því að bregðast af hörku við auknum ágangi Kínverja á undanförnum vikum en fyrr í vikunni skutu Taívanar viðvörunarskotum að dróna á svipuðum slóðum.
Drónanum var flogið inn í lofthelgi Taívans um klukkan fjögur í nótt, að staðartíma. Samkvæmt frétt Reuters var viðvörunarskotum skotið að drónanum, áður en hann var skotinn niður af hermönnum. Dróninn brotlenti í sjónum við eyjarnar.
Sambærilegt atvik átti sér stað í gærmorgun þar sem dróna var snúið við til meginlandsins eftir að viðvörunarskotum var skotið að honum.
Tsai Ing-wen, forseti Taívans, segir Kínverja reyna að nota dróna, auk annarra leiða, til að reyna að ógna Taívönum. Í yfirlýsingu frá henni segir að Taívanar muni ekki reyna að ögra Kínverjum en þeir muni ekki standa aðgerðarlausir gagnvart ögrunum frá Kína.
Bandarískir þingmenn og aðrir embættismenn hafa á undanförnum vikum heimsótt Taívan og ríkin hafa einnig gert samkomulag um vopnakaup. Samhliða því hafa Kínverjar fjölgað heræfingum í grend við Taívan og aukið umfang þeirra.

Auknar áhyggjur af innrás
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.
Xi Jinping, forseti Kína, hefur sagt það „óhjákvæmilegt“ að Taívan verði hluti af Kína.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði. Ráðamenn í Kína eru mótfallnir því að Taívanar eigi í opinberum samskiptum við önnur ríki.
Áhyggjur af mögulegri innrás Kínverja í Taívan hafa aukist á undanförnum árum.
Sjá einnig: Útsendarar Kína í innsta hring herafla Taívans og meðal lífvarða forsetans
Taívan hefur staðið frammi fyrir mögulegri innrás frá Kína í áratugi. Undanfarin ár hafa þó orðið mikilvægar breytingar sitthvoru megin við Taívansund.
Samhliða því að sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan, hefur geta herafla ríkisins dregist saman. Um þrjár milljónir manna eru í varalið herafla Taívans en meirihluti þeirra segist litla sem enga þjálfun hafa fengið.