Þetta tilkynnti Gaston Browne forsætisráðherra Antígva og Barbúda í dag. Hann segir að þjóðaratkvæðagreiðslan muni líklega vera haldin innan þriggja ára en ákvörðunin um þjóðaratkvæðagreiðslu sé ekki merki um fjandskap.
Þetta tilkynnti forsætisráðherrann stuttu eftir að hann lýsti Karl þriðja Bretakonung þjóðhöfðingja landsins. Að hans sögn mun hann boða atkvæðagreiðsluna verði hann endurkjörinn forsætisráðherra á næsta kjörtímabili. Gert er ráð fyrir að Browne muni bera sigur úr bítum í kosningunum en flokkur hans fer með fimmtán af sautján sætum í fulltrúadeild þingsins.
Eftir að fregnir bárust um andlát drottningarinnar hefur umræðan um fullt sjálfstæði kviknað að nýju meðal þeirra fjórtán þjóða sem hafa þjóðhöfðingja Bretlands sem sinn eigin. Að sögn Browne hefur kallið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu ekki verið hávært meðal íbúa Antígva og Barbúda en nú sé tilefni til að endurmeta stöðuna.
Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, hefur útilokað að boðað verði til svipaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi á þessu kjörtímabili. Umræðan um það hefur kviknað að nýju eftir andlát drottningarinnar en Albanese, sem er sjálfur lýðveldissinni, sagði í samtali við Sky News að hugleiðingar um breytingu á stjórnarskrá landsins væru ekki tímabærar á hans fyrsta kjörtímabili.
„Þetta er tímabil sem við syrgjum fráfall drottningarinnar og sýnum Drottningu Ástralíu virðingu,“ sagði Albanese.
Auk þess að vera þjóðhöfðingi Bretlands er Karl Bretakonungur þjóðhöfðingi fjórtán annarra ríkja, eins og áður segir. Það eru: Antígva og Barbúda, Ástralía, Bahama-eyjar, Belís, Kanada, Grenada, Jamaíka, Nýja-Sjáland, Papúa Nýja-Gínea, Sankti Kitts og Nevis, Sankti Lúsía, Sankti Vinsent og Grenadínur, Salómonseyjar og Túvalú.
Barbados tók skrefið í fyrra og sleit tengsl sín við bresku krúnuna. Sandra Mason, sem hafði verið landstjóri Barbados frá árinu 2018 var skipuð forseti til bráðabirgða. Stjórnarflokkur Verkamanna á Jamaíka hafa þá lýst yfir áætlunum um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eyríkið verði lýðveldi.