Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir septembermánuðk. Þar segir að sérstaklega hafi dregist úr því að íbúðir seljist meira en 5 prósentum yfir ásettu verði og sér í lagi meðal íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. Í júlí hafi 14,8 prósent íbúða selst svo mikið yfir ásettu verði á meðan hlutfallið var hæst 35,2 prósent í apríl.
Þá segir í skýrslunni að í síðustu mánaðarskýrslu hafi verið komið inn á að fasteignamarkaðurinn sýndi fyrstu merki áhrifa hertrar peningastefnu Seðlabankans. Nú séu merki um slíkt orðin skýrari.
Íbúðum í sölu hafi fjölgað hratt að undanförnu. Á höfuðborgarsvæðinu séu nú 1.067 íbúðir til sölu en í lok júlí hafi þær verið 700 talsins. Þannig sé um að ræða 52 prósenta aukningu. Þegar minnst hafi verið í byrjun febrúar á þessu ári hafi aðeins 437 íbúðir verið á sölu á svæðinu.
Þar að auki hafi kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fækkað nokkuð á milli mánaða, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem voru aðeins 378 útgefnir kaupsamningar í júlí. Fjöldi kaupsamninga í einum mánuði hefur eki verið jafn lítill síðan árið 2013 en um er að ræða bráðabirgðatölur.
Fleiri hafa ekki starfað í byggingariðnaði síðan haustið 2008
Fram kemur í skýrslunni að umsvif á byggingarmarkaði virðist í hæstu hæðum um þessar mundir. Velta á markaðnum hafi ekki verið jafn mikil eins og á síðasta veltutímabili, frá maí fram í júní, frá því að mælingar hófust í upphafi árs 2008 ef miðað er við árstíðaleiðréttar tölur á föstu verðlagi, eða 77,5 milljarða króna.
Aðrir mælikvarðar gefi einnig til kynna mikil umsvif. Um 15.760 hafi verið starfandi í byggingariðnaði í júlí miðað við árstíðaleiðréttar tölur, sem sé litlu minna en í júní þegar fjöldinn var um 15.800.
Fyrir utan júní hafi ekki verið fleiri starfandi í greininni síðan á haustmánuðum 2008. Þá sé mikill fjöldi nýskráðra fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og fjöldi gjaldþrota ekki verið lægri frá upphafi mælinga.