Greint er frá andláti Hilmars í Morgunblaðinu.
Hilmar var fjölfatlaður en dvaldi um tíma á hjúkrunarheimili aldraðra því Reykjavíkurborg neitaði honum um heimaþjónustu. Hann hafði búið í leiguíbúð á vegum borgarinnar og fékk þar heimaþjónustu en eftir að meðferð hans þar lauk var honum neitað um áframhaldandi hjúkrun.
„Við fáum ekki skýr svör. Jú hjúkrunarþörfin mín er meiri en áður það þarf jú að skipta á þessu sári einu sinni á dag. Borgin virðist setja það fyrir sig, þetta er eitthvað sem borgin er þver með og vill ekki veita,“ sagði Hilmar í samtali við Stöð 2 undir lok síðasta árs.
Í kjölfar viðtalsins var honum tilkynnt að hann fengi að fara aftur heim og að hann fengi þá þjónustu sem hann þarf, svo lengi sem það tækist að ráða starfsfólk á tilsettum tíma.
Það tókst ekki og þegar hann missti pláss á hjúkrunarheimilinu var honum vísað á spítala.
„Þetta er bara mjög skrítinn tilfinning, ég er ekki veikur, ég er á spítala og þetta er bara mjög skrítin og óþægileg tilfinning. Mér þykir bara mjög leitt að borgin skuli ekki veita einhverja neyðarþjónustu meðan ég er að negla saman einhverju starfsfólki til að sinna mér. Það er ótrúlegt að maður sé settur á spítala þar sem er neyðarástand í stað þess að það sé fundið eitthvað annað úrræði,“ sagði Hilmar.