Innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar samþykkti fyrr í mánuðinum tilboð frá lægstbjóðanda, Sportís ehf., sem hljóðaði upp á 100 milljónir, sem var um 90 prósent af kostnaðaráætlun.
Skúli Jóhann Björnsson, framkvæmdastjóri Sportís, segir í samtali við Vísi að umrædd rennibraut verði um tólf metra há og að hún verði hvít á lit. Hann segist gera ráð fyrir að rennibrautin verði reiðubúin og tilbúin til notkunar í febrúar, mars eða apríl.
„Nú verður ráðist í framleiðslu á rennibrautinni og hún svo flutt til landsins. Það tekur um sextíu daga að koma rennibrautinni upp eftir að hún er komin til landsins,“ segir Skúli Jóhann.
Hann segir að rennibrautin muni ekki vera þannig að þeir sem hana noti ljúki ferðinni ofan í sjálfri lauginni, heldur í „bremsubraut“ líkt og tíðkast víða. Rennibrautin sem verði komið upp í Dalslaug svipi mjög til þeirrar sem sett var upp í Vatnaveröld í Reykjanesbæ á sínum tíma, nema að þessi verði hvít að lit.

Verið að svara kalli íbúa
Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður ráðsins, segir að með því að koma upp rennibraut í Dalslaug sé verið að svara ákalli íbúa. „Þetta voru óskir íbúa að fá þarna rennibraut, en það var ekki gert ráð fyrir henni í upphaflegri hönnun. En nú er gengið í það að gera þetta að veruleika. Liður í því er að bjóða verkið út og þetta er allt komið af stað.“
Hann segir að borgin muni fyrst að standa að framkvæmdum við gerð undirstöðu. „Það verður ráðist í þær mjög fljótlega. Eftir það verður hægt að hefjast handa við að koma upp rennibrautinni.“
„Geggjuð aðstaða“
Hjálmar segir að rennibrautin verði á austurbakkanum, fjær húsinu.
„Þetta er orðin alveg geggjuð aðstaða þarna við Dalslaug. Auk sundlaugarinnar er þarna leikskóli, grunnskóli og mjög flott íþróttasvæði, auk nýrrar tegundar af bókasafni, sem svipi til þeirra hafi verið að ryðja sér til rúms á Norðurlandi. Þar er til dæmis að finna stúdíó þar sem allir geta tekið upp í. Við megum vera stolt af uppbyggingunni þarna.“
Að neðan má sjá innslag úr kvöldfréttum Stöðvar 2 frá opnun sundlaugarinnar í desember 2021.